Nýsköpunarfyrirtæki og nýsköpunarstyrkir, nýsköpunar-hitt og nýsköpunar-þetta
"Words mean things" - merkingarleysa hjálpar ekki og það er betra að velja orðin vel.
Takk fyrir frábærar viðtökur! Hef verið að undirbúa næstu vikur og mun vonandi skrifa reglulega. Endilega sendið á mig línu (kristinn@northstack.is) ef þið hafið hugmyndir að efni eða komment. Það má líka smella á reply!
“Words mean things” - en hvað þýðir nýsköpun?
Ein uppáhalds tilvitnunin mín frá fyrrum samstarfsmanni er hið augljósa, en jafnframt mikilvæga “Words mean things”. Það skiptir máli hvaða orð við notum um það sem við ræðum, því út frá þeim spretta gögn, greiningar og mælingar – og síðan aðgerðir.
Nýsköpun, samkvæmt skilgreiningu, hefur mjög víða merkingu: að búa til eitthvað nýtt og endurbæta það sem þegar er til staðar. Lykillinn er að nýsköpun (e. innovation) snýst um að það nýja komist í notkun. Uppfinning sem kemst aldrei í gagnið er bara uppfinning (e. invention), en ekki nýsköpun.
Nýsköpun er þannig ekki geiri. Nýsköpun getur átt sér stað í öllum geirum og fyrirtæki og stofnanir á öllum aldri og vaxtarstigi geta stundað nýsköpun. Líklega stunda flest sprotafyrirtæki mikla nýsköpun — eða reyna það allavega.
Þessi skilgreining leiðir augljóslega til þess að “nýsköpunarfyrirtæki” sem hugtak er í besta falli misskilningur og versta falli merkingarleysa. Að tala um nýsköpunarfyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem stunda nýsköpun í sínum störfum, er eins og tala um markaðsfærslufyrirtæki, bókhalds- og uppgjörsfyrirtæki, eða “eitthvað-sem-fyrirtæki-gera”-fyrirtæki.
Hugsið aðeins um það — hefur einhver heyrt talað um “innovation company”? Það hljómar eins og orðskrípi, enda er það orðskrípi. Nýsköpun er eitthvað sem fyrirtæki gera, ekki eru. Ég (þykist) fara í ræktina. Ég er samt ekki ræktarmenni.
Það er mikilvægt að nota rétt orð um hlutina því “words mean things.” Eina leiðin til að eiga ítarlega umræðu um hvernig málin standa í “fjórðu stoðinni” er að við notum orð og hugtök og gögn sem nýtast.
“Nýsköpunarfyrirtæki” og “nýsköpunarstyrkir”
Stærsti gerandinn í að tala um nýsköpunargeirann og nýsköpunarfyrirtæki er hið opinbera. Sem dæmi er talað um á vefsíðu skattsins sem fjallar um endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarstarfs sem “Skattafrádrátt vegna nýsköpunar” sem byggir á lög um “stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.” Þar er nýsköpunarfyrirtæki skilgreint sem “Lögaðilar skv. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem stunda rannsóknir eða þróun samkvæmt lögum þessum” — sem útleggst á íslensku sem “Lögaðilar sem eru hlutafélög, einkahlutafélög, sameignar- eða samlagsfélög og stunda rannsóknir- og þróun…”
Hugtakið nýsköpunarfyrirtæki þýðir því “öll fyrirtæki sem stunda R&Þ”. Eða með öðrum orðum getur það átt við öll fyrirtæki. Hugtak sem lýsir öllu er gagnslaust í umræðu og ætti því að hætta notkun. Í nýlegum bandormi var lögunum breytt og þessu orðskrípi bætt við á fleiri stöðum. Ekkert kemur fram í greinargerð um afhverju það var gert.
Hið rétta er að þar ræðir um skattafrádrátt vegna tegundar vinnu og aðgerða (Rannsókna- og þróunar) og öll fyrirtæki geta sótt þær endurgreiðslur. Það eitt að fjárfesta í R&Þ gerir fyrirtæki ekki að nýsköpunarfyrirtæki (enda er nýsköpun ekki geiri). Brim er sjávarútvegsfyrirtæki, og það að félagið sé sjávarútvegsfyrirtæki kemur ekki í veg fyrir að það geti stundað nýsköpun. Auðvitað ætti að breyta þessu og gera skýrt.
Við endurgreiðum kvikmyndir en styrkjum “nýsköpunarfyrirtæki”
Það leiðir til annars, öllu heldur alvarlegra, misræmis á orðanotkun. Ég óska engum þess að grúska í fjárlögum — enda óbærilega stór PDF skjöl sem þarf allt að því sérstaka þjálfun í að skoða (reyndar er með fjárlögum 2025 komið ágætis tól til að leita að sérstökum fjárlagaliðum ofl, sem er vel gert 👏). En ég gerði það fyrir ykkur!
Undir málaflokknum 07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar má finna eftirfarandi útgjaldaliði:
16-521 Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi
16-523 Endurgreiðslur vegna hljóðritunar tónlistar á Íslandi
17-522 Styrkir til nýsköpunarfyrirtækja (undir þetta falla eingöngu R&Þ endurgreiðslur. Tækniþróunarsjóður og aðrir styrktarsjóðir eru í málaflokk 7.10)
Einhverra hluta vegna ákveður löggjafinn og fjárlagavaldið að tala um þær upphæðir sem fara í að endurgreiða rannsóknar- og þróunarkostnað sem styrki. En sama aðgerð, að endurgreiða ákveðinn útlagðan kostnað í virðiskeðju kvikmyndaiðnaðar, er kölluð endurgreiðsla.
Hvers vegna skiptir þetta máli? Orðanotkunin hefur áhrif á viðhorf okkar til ríkisaðgerða. Styrkur getur virst vera eitthvað sem ríkið gefur af rausn, á meðan endurgreiðsla hljómar hlutlausari og minna ívilnandi. Slíkur munur á orðalagi getur breytt því hvernig almenningur, og ekki síður stjórnmálafólk og embættisfólk, líta á mikilvægi R&Þ innviða.
Ég veit ekki, en words mean things.
Hvað haldið þið?
Annað áhugavert
Líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics lauk €26.5m EUR fjármögnun.
Outcome, íslenskt sprotafyrirtæki sem þróar hugbúnað til að hjálpa fyrirtækjum að verða betri þegar þau verða stærri (en ekki verri, eins og venjan er!), lauk nýlega fjármögnun frá m.a. fjárfestingasjóðnum a16z, og fékk inngöngu í Speedrun hraðalinn þeirra, fyrst íslenskra félaga. (ath: ég á mjög lítinn hlut í þessu félagi)
DTE, sem þróar tækni til að rauntímagreina gæði málma réð sér nýjan forstjóra.
„Ríkið á ekki að vera að þróa lausnir sem eru í beinni samkeppni við einkamarkaðinn,“ sagði Margrét Anna Eianarsdóttir, forstjóri Justikal í viðtali við Viðskiptablaðið. Justikal þróar hugbúnað fyrir réttarkerfi. Ég mun þegar á líður skrifa frekar um þessi mál almennt, enda athyglisverðar ákvarðanir hins opinbera þegar kemur að tækni reglulega í fjölmiðlum
Það stunda ekki öll fyrirtæki rannsókna- og þróunarstarf. Og það falla alls ekki allar nýjungar undir nýsköpunarhugtakið í skilningi R&Þ. Samkvæmt leiðbeiningum OECD sem lýst er í Frascati Manual þurfa slík verkefni að uppfylla ströng skilyrði. Það er því miður óljóst hvort öll þau verkefni sem skattendurgreiðslur ná til uppfylla endilega þessi skilyrði. Sama má gjarna segja um verkefni sem Rannís styrkir.