Kerecis-áhrifin, og meira um hugtök og orðanotkun
Að búa til gott umhverfi fyrir nýsköpun er erfiðast að láta boltann byrja að rúlla.
Í gær birti Hluthafinn fyrstur frétt þess efnis að Kerecis og Coloplast myndu, sem hluta af tilfærslu hugverkaréttinda á vörum Kerecis, greiða um 40 milljarða í skatta til íslenska ríkisins upphæð sem fáir (þar með talið ríkissjóður) höfðu gert ráð fyrir. Hún bætist ofan á þá skatta sem hluthafar greiddu af fjármagnstekjum við sölu á félaginu. Spurning er hvort Vestfirðingar fái göngin sem þeir hafa beðið eftir, en þessi skattgreiðsla dugar fyrir um helmingnum af þeim kostnaði.
En nóg um það – Northstack er ekki staður fyrir landshluta- eða skattapólitík.
Hringrásarhagkerfið
Einn mikilvægasti – og jafnframt einstakur – þátturinn í umhverfi frumkvöðla og sprotastarfs er grundvallarstaðreyndin að vinnan snýst um að stækka kökuna en ekki að stela sneiðum af öðrum.
Markmiðið er að skapa eitthvað nýtt – vörur, markaði, fyrirtæki og þjónustur – og selja á alþjóðlegum vettvangi. Fólk leggur tíma sinn að veði (oft með lægri launum og loforði um “upside” í formi kauprétta) til að taka þátt í vegferð sem er líklegri til að klúðrast en ekki. Á hinn boginn, ef allt gengur upp, þá eru áhrifin og verðmætasköpunin langtum meiri en á öðrum vettvangi.
Þannig myndast ákveðið hringrásarhagkerfi1:
Fólk fjárfestir tíma sínum og peningum í sprotafyrirtæki.
Ef fyrirtækinu gengur vel, fær fólk fjárfestinguna margfalt til baka.
Þeir sem hafa hagnast eru líklega smitaðir af sprotaveirunni og fjárfesta aftur bæði tíma og peningum í ný sprotafyrirtæki.
… og þannig heldur það áfram
Með hverju árinu fjölgar þeim sem hafa gengið í gegnum þennan feril – einstaklingum sem hafa stofnað fyrirtæki sem gengur vel – sem leiðir til þess að fleiri hafa getu og áhuga á að styðja næstu kynslóð frumkvöðla.
Þetta hefur verið að gerast reglulega undanfarin 10 ár. Sífellt fleiri hafa eignast fjármagn, byggt upp þekkingu og tengslanet til að fjárfesta í fyrstu stigum fyrirtækja. Hver einasti sigur eykur líkurnar á næsta sigri og styttir tímann þangað til hann verður. Þegar ég var að byrja voru það m.a. Hjalli úr Datamarket (nú Grid) og Gunnar Hólmsteinn úr Clöru sem voru dæmi um nýleg exit, og báðir tóku virkan þátt í að gefa til baka inn í umhverfið.
En salan á Kerecis bætti nýrri vídd í þetta umhverfi.
Kerecis-áhrifin
Verðmiðinn á Kerecis endaði í kringum 180 milljarða króna sem dreifðist á fjárfesta, stofnendur og starfsfólk. Mikið hefur verið skrifað um fyrri tvo aðilana, en sérstaklega áhugaverður þáttur að mínu mati sá rúmlega 4,5 milljarðar króna hluti sem endaði hjá starfsfólki á Íslandi í formi nýtingar kauprétta. Starfsfólk á kaupréttum fékk því meira fyrir sinn snúð en heilu fyrirtækin voru seld fyrir í kringum þann tíma þegar Northstack var að byrja, sem að mínu mati er einn mikilvægasti hluti Kerecis-áhrifanna.
Samkvæmt upplýsingum frá félaginu höfðu um 80 starfsmenn á Íslandi unnið sér inn kauprétti á þeim tíma. Meðalágóði hvers starfsmanns var því um 56 milljónir króna. Dreifingin var líklega breytileg, allt frá nokkrum milljónum upp í hundruð milljóna. Í umfjöllun frá 2018, fimm árum fyrir yfirtökuna, kom fram að starfsmenn Kerecis voru þá um 30, þar af 15 í Bandaríkjunum. Því er ljóst að stór hluti starfsmanna með kauprétti hafði starfað hjá félaginu í minna en fimm ár. Meðaltalsbónus upp á 56 milljónir fyrir fimm ára starf er ansi góð umbun í samanburði við hefðbundin laun.
Árangur Kerecis sýnir að það getur borgað sig að vinna hjá sprotafyrirtæki, jafnvel þótt laun séu mögulega lægri í byrjun. Fyrirtækið hefur þannig skapað nýjan hóp einstaklinga sem hefur á eigin skinni upplifað verðmætasköpun með hugviti og nýsköpun. Það er líklegt að hluti þess fjármagns renni aftur inn í sprotaumhverfið og næstu kynslóð stofnenda.
Það var því ánægjulegt að sjá í fyrstu fjármögnunartilkynningu ársins að meðal fjárfesta voru aðilar sem tengdust Kerecis. Hringrásarhagkerfið í fullum gangi.
Enn af hugtökum og orðanotkun
Ég fékk nokkuð af viðbrögðum eftir síðasta póst, bæði hér í komment og beint á tölvupósti (og ég minni á að ég gleðst mikið yfir viðbrögðum!) og vildi því koma nokkru á framfæri:
Það var réttilega bent á, að þrátt fyrir að nýsköpun geti átt sér stað vítt og breitt um atvinnuvegi, hjá hinu opinbera jafnt sem einkafyrirtækjum, þá geti nýsköpun einkennt hóp fyrirtækja á mun áhugaverðari hátt en bókhald eða markaðsfærsla gerir.
Þá var einnig bent á að nýsköpun =|= rannsóknir og þróun; þ.e. þú getur stundað nýsköpun án þess að stunda rannsóknir og þróun. Sem er rétt.
Hvoru tveggja breytir ekki þeim punkti, og jafnvel styður hann enn fremur, að orðanotkun þegar kemur að atvinnuvegum og verðmætasköpun tengd hugviti, nýsköpun, rannsóknum og þróun er á víð og dreif sem er að engu leyti hjálplegt fyrir fólk og félög sem vilja skilja raunverulega stöðu og eiga samtal byggt á gögnum.
Sömuleiðis var spurt út í “sprotafyrirtæki.” Hvað er það? Og er það eitthvað annað en startup? Eða vaxtarfyrirtæki?
Ég hugsa um þetta sem nokkrar víddir til að lýsa sama fyrirtækinu:
Staða í (líklegum) lífsferli (t.d. sproti, vöxtur, og svo framvegis).
Atvinnuvegur / Geiri (t.d. fjártækni, sjávarútvegur, tölvuleikir, orkuframleiðsla).
Svo er spurning hvort “nýsköpun” væri önnur vídd? Hvaða aðrar víddir eru mögulegar?
Annað áhugavert
Retina Risk - annað félag sem Einar Stefánsson einn stofnenda Oculis kemur að - landaði 2 milljarða króna samningi í Sádí Arabíu.
Sendið mér ábendingar ef þið lumið á þeim.
Það er vissulega smá grín að kalla þetta “hringrásarhagkerfi” því “hringrásarhagkerfi” er notað til að lýsa allt öðru. Mér fannst smá fyndið að byrja með svona orðarugling þar sem ég var að tuða yfir því í síðasta pósti. Afsakið það.
Geggjaður lestur, takk <3