Nýsköpunarvika, endurskoðun R&Þ endurgreiðslna, og lokaorð um Nýsköpunarsjóð
Ýmislegt í pistli dagsins.
Gleðilegan föstudag!
Nú styttist í nýsköpunarviku - Iceland Innovation Week - sem verður glæsilegri með hverju árinu. Hægt er að kaupa miða hér (ekki spons!). Sá annars nokkra áhugaverða pósta um viðburði á vikunni:
Samtök englafjárfesta á Íslandi - IceBAN - auglýsa eftir sprotum sem vilja kynna á súrhákarls-leikunum (“Fermented Shark Tank”). Smelltu hér til að sækja um.
Nordic Ignite ætlar að halda partý. Ef þú lætur þau vita þá færðu kannski boð.
R&Þ endurgreiðslur
Það hefur lítið farið fyrir opinberri umræðu um tillögu hagræðingarhópsins að endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar verði endurskoðaðar. Fyrir hönd bransans þá þakka ég hópnum fyrir að tala um endurgreiðslur (munið - fjármálaráðuneytið talar um “styrki til nýsköpunarfyrirtækja” og hafa enn ekki svarað fyrirspurn minni um afhverju það sé svo) en spyr mig hvað á að endurskoða. Kerfið í heild sinni? Upphæðir? Refsiákvæði?
Við lok síðasta árs ætlaði um koll að keyra þegar (að flestra mati) vanhugsaðar tillögur þáverandi fjármálaráðherra til að “spara” í ríkisrekstrinum voru settar fram í bandormi. Þáverandi nýsköpunarráðherra og meirihluti þingsins náði þó að tryggja að dregið var í land með margar þær breytingar sem hefðu haft slæm áhrif á fjárfestingu í R&Þ.
Þá er spurning hver staðan sé núna og hvað eigi að endurskoða — hvernig ætti að endurskoða þetta kerfi að ykkar mati? Ég hef sent fyrirspurn á RSK um ýmsa hluti og mun vonandi ná að fjalla af meiri dýpt um þetta á næstunni.
Lokaorð um Nýsköpunarsjóð
Það vakti athygli mína að það var mikill samhljómur í þeirri endurgjöf sem ég fékk eftir síðustu pistla um Nýsköpunarsjóð um að það að leggja hann niður væri allt í lagi. Nokkrir þökkuðu sérstaklega fyrir umfjöllun um Nýsköpunarmiðstöð og að það væri mikilvægt að muna að breytingar geti verið af hinu góða. Aðrir eru hlynntari almennum stuðningi en ekki beinum stuðningi við einstaka fyrirtæki. Sama hvað þeirri endurgjöf líður, eru auðvitað rök fyrir því að leggja ekki niður stofnunina.
Það eru mjög góð skilaboð út í umhverfið að ríkið hyggist fjárfesta í nýsköpun til að græða á því, skilaboð um traust á sprotum og að þeir styðji við langtímavöxt hagkerfisins á Íslandi.
Ef vel er haldið á spöðunum, er hægt að búa til tæki og tól sem styðja við uppbyggingu fjármögnunarumhverfis, t.d. með mótframlagsaðferðum.
Stóra málið er þó að það vantar ekki peninga í kerfið. Það eru 8000 milljarðar í lífeyrissjóðakerfinu, og á hverju ári fjölgar milljóna- og milljarðamæringum sem eiga pening og gætu fjárfest í sprotum. Þá eru alltaf fleiri og fleiri aðilar sem vinna að því að búa til fjárfestingarsjóði sem sérhæfa sig í sprotum, eða ákveðnum geirum.
Ákveði stjórnvöld að halda Nýsköpunarsjóð starfandi, tel ég mikilvægt að eftirfarandi sé haft í huga:
Að tekið sé mið af því fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja er kvikt, á fleygiferð og meiri líkur en minni að bein inngrip ríkisins hafi neikvæð áhrif. Þá er ég sérstaklega að tala um ruðningsáhrif (crowding-out) ef Nýsköpunarsjóður heldur áfram í samkeppni við almenna fjárfesta á markaði, eða kemur sér þannig fyrir í virðiskeðjunni að almennir fjárfestar treysti á opinbera stofnun til að “stimpla” fyrirtæki eða sjóði. Það væri skref afturábak ef upprennandi sjóðsstjórar fengju fyrst ríkisstimipilinn, áður en aðrir fjárfestar settu sína peninga að veði sem gæti hæglega þróast í að enginn gæti safnað nýjum sjóði nema ríkis-stimpillinn væri kominn.
Að endurhugsa mótframlagsverkfæri til að fylgja fjárfestum en ekki handvelja fyrirtæki. Síðustu ár hafa ýmis mótframlagsverkfæri verið notuð (þar með talið eitt sem ég tók þátt í). Hingað til hefur mótframlagið verið byggt á fyrirtækjum (þ.e. fyrirtæki sækja peninginn) en ekki fjárfestum (virkir fjárfestar fái mótframlag inn í sínar fjárfestingar). Við eigum að læra af erlendum fyrirmyndum og horfa á hið síðara — þ.e. að veita mótframlag inn í fjárfestingar með fjárfestum, en ekki að ríkið stimpli þau fyrirtæki sem eru tæk til mótframlags. Þannig færist hið opinbera fjær því að velja verkefni og nær því að styðja við fjármögnunarumhverfi.
Að inngrip séu hönnuð og ákveðin byggt á gögnum og þekkingu og bestu þekktu aðferðum við inngrip í fjármögnun. Það kemur fyrir að staðhæfingar á borð við “það vantar fjármagn í [X]-tækni” eða “það vantar fjármagn á [Y]-stigi” séu settar fram af hinu opinbera. Hingað til hafa lítil sem engin gögn - önnur en tilfinning eða skoðanir - verið á bakvið þessar fullyrðingar svo ég viti til, og ef það eru gögn á bakvið þær þá væri eftirsóknarvert að þær fylgdu staðhæfingunum. Sömuleiðis hafa margar þjóðir, bæði norðurlönd og aðrir, hannað og prófað inngrip í fjármögnunarumhverfi sinna sprotafyrirtæki, og við ættum að læra af þeim eftir bestu getu.
Hvernig haldið þið að þetta fari? (Smella á reply og svara!)