Netöryggi sem nýjasta útflutningsvaran, og sístækkandi "pre-seed" fjármögnun
Netöryggi er á allra vörum, og fyrirtæki sem vinna að því að einhverju leyti spretta upp eins og gorkúlur.

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum sem fylgist með tæknisprotum að fjöldi netöryggisfyrirtækja sem eru að gera sig gildandi með tilkynningum um fjármögnun, viðskiptavini eða ráðningar hefur aukist þónokkuð á nýliðnum misserum.
Syndis, þjónustufyrirtæki á sviði netöryggis sem Skyggnir, þá Origo, keypti 2021 gerði nýverið samning við Samband íslenskra sveitarfélaga, og hélt öryggisráðstefnu.
Aftra, félag stofnað af Skyggni fyrri hluta árs 2024, tryggði sér 200m króna fjármögnun í október 2024 og er komið í $1m í ARR.
Defend Iceland, stofnað m.a. af Theodóri Ragnari Gíslasyni stofnanda Syndis, bætti við sig fólki, sótti fjármagn, og hafa stofnað til samstarfs við fjölda íslenskra félaga, og eru með nálægt $1m í ARR.
Keystrike sótti 150m árið 2023, 265m ($2m) árið 2024 og réð Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur sem var áður hjá Defend Iceland núna nýlega.
Varist, sem er spin-out úr Cyren sem var með þróun á Íslandi. Var keypt af OK og spunnið út ári 2023, sótti sér milljarð í hlutafé ári síðar með þátttöku VEX og Eyri Sprota. Stofnuðu nýtt teymi um daginn.
Nanitor, tók inn $1.7m fyrir nokkrum árum frá Brunni
AwareGo sótti sér fjármagn fyrir nokkrum árum til vaxtar.
Þessi félög eru öll vissulega að einbeita sér að mismunandi hliðum: AwareGo þjálfar öryggisvitund (því manneskjan er alltaf veikasti hlekkurinn í netöryggi), og Syndis er þjónusta- og ráðgjöf. Defend Iceland rekur villuveiðiverðlaun (e. Bug bounty), Aftra þróar sjálfvirk tól til að mæla stöðu netöryggismála hjá fyrirtækjum og gera þau aðgengileg fyrir stjórnendur, og Keystrike er lausn sem sannreynir innslög notenda til að koma í veg fyrir að þrjótar “troði” sér (e. inject) í skipanir tölvunotenda.
Líklega er innleiðing á NIS2 reglugerð Evrópusambandsins byr í segl þessara félaga, en með henni eru stjórnendur og stjórnarfólk gert ábyrgt fyrir netöryggismálum með refsiramma sem leyfir brottvísun úr starfi, sektir, og jafnvel fangelsi. Er nokkuð jafn hjálplegt sölufólki hugbúnaðar og möguleikinn á fangavist, sé hugbúnaðurinn ekki keyptur? Spurning hvort netöryggi sé nýjasta útflutningsvara okkar Íslendinga.
Pre-seed í veldisvexti
Það vakti áhuga minn á síðustu vikum að fjöldi pre-seed fjármögnunarlota hefur verið nokkuð mikill, eða um einn “díll” á viku. Í sjálfu sér er það ekkert tiltökumál, það tíðkast að á Íslandi séu tilkynntir 0.6-0.8 fjárfestingar á viku og flestar (eðlilega) á fyrstu stigum félaga, og því ekki óeðilegt að það komi tilkynningar nokkrar vikur í röð. Það sem var hinsvegar áhugavert var hversu breitt bil var á milli upphæða þessum viðskiptum. Raunar mætti líta svo á að upphæðin hafi farið stigvaxandi díl frá díl:
Í mars tilkynnti Circular Library Network um 45 milljón króna pre-seed
Stuttu síðar, tilkynnti Heima up 140 milljón króna pre-seed.
Í vikunni, tilkynnti Optise um 300 milljón króna pre-seed.
Að gamni, þá teiknaði reiknaði ég upp vöxtinn á þessum pre-seed fjárfestingum og spáði fram í tímann. Miðað við þennan hraða og vöxt verða pre-seed dílar orðnir meira en 3 milljarðar að stærð í kringum september.
Endilega sendið mér hugmyndir að efni eða ykkar skoðun á því sem er í gangi.
Góða helgi!