Mikilvægi nýsköpunar og sprotastarfs óumdeilt í hugum landsmanna
Niðurstöður könnunar Gallup fyrir Northstack sýna svo ekki verður um villst að almenningur á Íslandi telur framlag nýsköpunar og sprotastarfs til hagkerfisins og hagvaxtar mikilvægt. Yfirgnæfandi meirihluti svarenda, eða 87%, sagði að framlag nýsköpunar og sprotastarfs væri frekar eða mjög mikilvægt.
Könnunin, sem er hluti af stærri framhaldsrannsókn Northstack á umhverfi nýsköpunar á Íslandi, var framkvæmd dagana 2-14 maí 2025 og var lögð fyrir handahófsvalinn hóp úr viðhorfshópi Gallup.
Spurt var “Hversu mikilvægt eða ómikilvægt finnst þér framlag nýsköpunarstarfs og sprotafyrirtækja til hagkerfisins og hagvaxtar?” og svörin voru afgerandi: 87% sögðu framlagið frekar eða mjög mikilvægt, en einungis 1.6% töldu það ómikilvægt.

Athygli vekur að niðurstöðurnar eru nokkurnveginn þær sömu milli aldurshópa, kynja, búsetu, tekjuhópa og menntunarstigs.
Þá eru rúmlega 75% landsmanna jákvæð um framtíð nýsköpunar á Íslandi. Spurt var: “Ert þú jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) um framtíð nýsköpunar á Íslandi?” og voru svörin eftirfarandi.
Könnunin er hluti af stærri framhaldsrannsókn Northstack á umhverfi nýsköpunar á Íslandi (“Nýsköpunarlandið 2025”), og byggir á fyrri útgáfu samnefndrar rannsóknar (Nýsköpunarlandið 2019 - www.nyskopunarlandid.is).
Nýsköpunarlandið 2025 er ítarleg greining á umhverfi nýsköpunar og þróunar þess, og byggir á sambærilegri rannsókn sem Northstack framkvæmdi árið 2019. Niðurstöðurnar, sem gefnar verða út í haust, sýna þróun á viðhorfi fólks sem stundar sprota- og nýsköpunarstarf til helstu þátta sem stuðla að góðu umhverfi: fjármagns, mannauðs, samstarfi, opinbers stuðnings og ytri aðstæðna. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði.